17.10.2012
Mennta- og menningarmálaráðuneytið gefur út í samstarfi við Námsgagnastofnun rit um grunnþætti í menntun.
Grunnþættirnir eru kynntir í nýjum aðalnámskrám leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla 2011 og snúast um læsi á
samfélag, menningu, umhverfi og náttúru; einnig um framtíðarsýn, getu og vilja til að hafa áhrif og taka virkan þátt í að
viðhalda samfélagi sínu, breyta því og þróa. Þeim er ætlað að undirstrika meginatriði í almennri menntun, stuðla að
samfellu í skólakerfinu og ná til starfshátta, inntaks og námsumhverfis á öllum skólastigum. Þeir eru:
Læsi í víðum skilningi
Sjálfbærni
Heilbrigði og velferð
Lýðræði og mannréttindi
Jafnrétti
Sköpun
Nú eru komin út þrjú rit af sex um grunnþættina, fyrstu heftin fjalla um sköpun, læsi og lýðræði og mannréttindi.
Stefnt er að því að seinni þrjú ritin komi út í byrjun næsta árs. Öll ritin eru gefin út á rafrænu formi og
í takmörkuðu upplagi á prentuðu formi. Rafrænu
útgáfuna má nú nálgast hér...
Lesa meira
15.10.2012
Nemendur okkar, þær Stefanía Daney og Erna Kristín, unnu karamellukrukkuna sem markar tímamót í leit að Grenndargralinu 2012.
Grenndargralið er samfélagsfræðiverkefni unnið í 10 þrautum. Margir skólar keppa að lokatakmarkinu, að ná bikarnum sem finna má
eftir að 10 þrautir hafa verið leystar. Stefanía og Erna fengu vísbendingu kl 14:40, leystu orðarugl og hjóluðu því næst að
Krossanesborgum. Karamellukrukkuna fundu þær svo í gömlu skotbyrgi á staðnum um kl 18. Þær voru fyrstar af mörgum hópum sem allir voru
að leita að krukkunni góðu. 14 hópar lögðu af stað í þetta ævintýri úr Naustaskóla, enn eru virkir 4
hópar.
Áfram Naustaskóli!
Lesa meira
10.10.2012
Við fengum stórskemmtilega heimsókn í gær en þá kom Rakel Sölvadóttir frá fyrirtækinu Skema og tók nemendur 7.
bekkjar í tvær kennslustundir í forritun. Þetta var hluti af verkefni á vegum SUT, sem eru samtök upplýsingatæknifyrirtækja, sem felst
í að vekja áhuga nemenda á forritun og því að skapa sín eigin verk með hjálp upplýsingartækninnar í stað þess
að vera eingöngu í hlutverki neytenda. Forritunin fer fram í forritunarumhverfinu Alice en hugbúnaðinn getur hver sem er nálgast á
slóðinni www.alice.org. Einnig má fá nánari upplýsingar á vefnum www.skema.is. Hér má svo sjá
athyglisvert viðtal við kennarann, hana Rakel Sölvadóttur.
Lesa meira
09.10.2012
Foreldrafélagið hefur nú skipt
foreldrahópnum í hverjum árgangi í þrjá hópa, síðan er gert ráð fyrir að hver hópur sjái um eina
uppákomu eða bekkjarkvöld í vetur. Skipulagið miðast við að fyrsti viðburður sé í október-nóvember, næsti
viðburður sé í janúar-febrúar og loks einn viðburður í mars-apríl. Smellið hér til að skoða hópaskipanina og hér til að fá nánari upplýsingar um skipulag foreldrastarfsins...
Lesa meira
05.10.2012
Fræðsluerindi um einelti, forvarnir og úrvinnslu eineltismála
verður haldið fimmtudaginn 11. október í Félagsheimili KFUM og KFUK Sunnuhlíð 12 kl. 16.30 – 18.00.
Fyrirlesari er Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur og höfundur EKKI MEIR. EKKI MEIR er nýútkomin bók sem er leiðarvísir
í aðgerðum gegn einelti fyrir starfsfólk skóla, íþrótta- og æskulýðsfélög, foreldra og börn. Allir eru
velkomnir á fyrirlesturinn!
Lesa meira
01.10.2012
Það er ekki um að villast, það er kominn
október, og af því tilefni er að sjálfsögðu komið út nýtt fréttabréf.. Smellið hér til að opna fréttabréfið.
Lesa meira
24.09.2012
Endurgreiðsla vegna tannlækninga barna undir 18
ára var aukin umtalsvert 1. júlí sl. og gildir hækkunin til ársloka 2012. Endurgreiðsla nú er að meðaltali 62% en verður aftur
42% eftir áramót. Foreldrar eru því hvattir til að panta tíma fyrir börn sín í tanneftirlit og meðferð hið fyrsta til að
nýta hærri endurgreiðslu á meðan hún varir. Athugið að tannlækningum er einungis sinnt á einkastofum tannlækna. Tannlæknar
ákveða sjálfir verð á meðferð á sinni stofu. Ef gjaldskrá tannlæknis er hærri en gjaldskrá Sjúkratrygginga
Íslands þá greiðir einstaklingur mismuninn.
Lesa meira
21.09.2012
Miðvikudagurinn 26. september og fimmtudagurinn 27. september
eru viðtalsdagar í Naustaskóla. Þá mæta nemendur og foreldrar/forráðamenn í 2.-10. bekk til viðtals við umsjónarkennara.
Þar sem afar skammt er liðið frá viðtölum við nemendur 1. bekkjar eru þeir ekki boðaðir en foreldrar geta óskað eftir viðtölum og
eru þá beðnir um að hafa samband við umsjónarkennara. Viðtalstíma
má nálgast hér... Frístund er opin á miðvikudag og fimmtudag kl. 7:45-16:15 fyrir þá nemendur í 1.-4. bekk sem þar eru
skráðir að jafnaði, ekki þarf að skrá vistunartíma sérstaklega fyrirfram nema ef um er að ræða börn sem ekki nýta
þjónustu Frístundar að öllu jöfnu. Við minnum svo á að föstudagurinn 28. september er starfsdagur og þann dag er Frístund
lokuð.
Lesa meira
25.09.2012
Aðalfundur Foreldrafélags Naustaskóla
verður haldinn þriðjudaginn 25. september kl. 20:00-22:00.
Að minnsta kosti einn fulltrúi frá hverju heimili þarf að mæta á fundinn!
Fyrir fundinn, klukkan 19:00-20:00 verður opið hús þar sem foreldrar geta skoðað skólann og fengið sér molakaffi. Kl. 20:00 hefst svo
aðalfundurinn. Á dagskrá verða hefðbundin aðalfundarstörf, ásamt kjöri fulltrúa í skólaráð,
áætlað er að þeirri dagskrá verði lokið um 20:40. Að því loknu býður Foreldrafélagið og Naustaskóli
þeim foreldrum sem vilja sitja áfram uppá fræðslufyrirlestur um sjálfsstyrkingaraðferð er kallast Baujan. Til þess að kynna þetta
fáum við hana Guðbjörgu Thoroddsen sem er höfundur þessarar aðferðar til okkar, hún hefur haldið fjölda námskeiða og fyrirlestra um
þetta efni á höfuðborgarsvæðinu en þessi aðferð er notuð í mörgum skólum þar. Ef þið viljið kynna ykkur
þetta frekar bendum við á vefslóðina: www.baujan.is
Naustaskóli leggur áherslu á þátttöku og áhrif foreldra, nýtum tækifærið og tökum þátt í að skapa
gott og gagnlegt foreldrasamstarf.
Lesa meira
18.09.2012
Fyrsti tíminn er því á morgun í inniíþróttum hjá nokkrum bekkjum. Minnum á að allir eiga að koma með
íþróttaföt til að fara í og handklæði. 1.-3. bekkur þurfa ekki að vera í skóm og verða þau í
Íþróttahúsinu við Laugargötu í íþróttum og 4.-10. bekkur verða í KA-heimilinu.
Lesa meira