Kennsluhættir

Skipulag og kennsluhættir Naustaskóla markast af stefnu og markmiðum skólans. Áhersla er á námsaðlögun en við skilgreinum hana sem ”viðleitni til að koma til móts við þarfir, áhuga og getu hvers og eins nemanda”. Kapp er lagt á fjölbreytni í kennsluaðferðum og endurmenntun kennara og annars starfsfólks miðast við þjálfun og hvatningu til fjölbreytni.  Leitast er við að leggja viðfangsefni í hverri grein fram á fjölbreyttan hátt þannig að þau höfði til allra nemenda. Áhersla er lögð á skapandi viðfangsefni og að sérhver nemandi noti þá hæfileika sem hann býr yfir. Aðalnámskrá grunnskóla er lögð til grundvallar námsmarkmiða fyrir nemendur. Lagt er upp með að tímafjöldi nemenda í hverjum árgangi og í hverri námsgrein sé í samræmi við viðmiðunarstundaskrá menntamálaráðuneytisins en kennarar hafa svigrúm til að skipuleggja kennslu sína þannig að áherslur á námsgreinar og viðfangsefni séu mismunandi eftir vikum og tímabilum skólaársins.

Gert er ráð fyrir að stuðningskennsla fari fram í námsaðstæðum nemenda á almennum kennslusvæðum eins og framarlega er kostur. Lögð er áhersla á fyrirbyggjandi starf með samvinnu kennara og teymisvinnu. Kennarar, skólastjórnendur, iðjuþjálfi, þroskaþjálfar og stuðningsfulltrúar vinna saman að því að skipuleggja hvetjandi námsumhverfi og námsaðstæður.

Frá og með 2. bekk er nemendum kennt í aldursblönduðum hópum, til að leggja áherslu á að allir eru einstakir, að það sé eðlilegt að nemendur séu á mismunandi stöðum í náminu og til að efla félagsþroska þeirra, auka umburðarlyndi og auka sveigjanleikann í skólastarfinu.

Skipta má vikulegu skipulagi/stundaskrá í nokkra flokka;

a) Umsjónartími / fundir / samverustundir; Flestir dagar í hverjum námshópi hefjast með því að umsjónarkennari fundar með sínum umsjónarhópi um það sem efst er á baugi hverju sinni, miðað er við að þrjá daga í viku séu haldnir bekkjarfundir þar sem nemendur ræða saman og æfa m.a. samskiptahæfni sína.  Einu sinni í viku er samverustund á hverju aldursstigi fyrir sig þar sem nemendur leika og syngja saman.

b) Vinnustundir; Flestar kennslulotur á stundatöflum nemenda heita einfaldlega vinnustundir en þá vinna nemendur og kennarateymi hvers aldurshóps saman að náminu. Þá vinna nemendur stundum skv. einstaklingsáætlunum sem þeir búa til í samráði við sinn umsjónarkennara en þar er megináherslan á íslensku og stærðfræði en einnig er að hluta unnið í öðrum greinum s.s. náttúru– og samfélagsfræði, tungumálum o.fl. Þarna vinna nemendur að hluta einir, að hluta í hóp, stundum á ákveðnum námsstöðvum, stundum úti o.s.frv., allt eftir því sem verkefni krefjast og hvað hentar hverjum og einum.

c) Smiðjur; Verklegar greinar eru kenndar í svokölluðum ”smiðjum” þar sem kennarar skólans skipta með sér verkum í kennslunni og nýta sérþekkingu sína. Í smiðjunum fá nemendur því kennslu í heimilisfræði, smíðum, textílmennt, myndmennt, og tónmennt/leiklist, auk þess sem þeir fá tækifæri til að vinna að áhugasviðsverkefnum. Með áhugasviðsverkefnum er átt við að nemendur velja sér viðfangsefni til að kynna sér eða dýpka þekkingu sína á og gera samning um þá vinnu við kennara og í sumum tilfellum við foreldra.

d) Þemavinna; Með þemavinnu er átt við verkefni sem unnin eru út frá einu ákveðnu viðfangsefni þar sem námi í samfélagsgreinum, náttúrufræði, upplýsingatækni, lífsleikni og listgreinum er fléttað saman. Í þess konar vinnu gefast tækifæri til fjölbreyttra vinnubragða og mismunandi nálgunar fyrir hvern og einn. Í þemavinnunni vinna oftast saman sömu árgangar og venjulega, þ.e. 2./3., 4./5., 6./7. og 8./9. en í einhverjum tilfellum er nemendum blandað enn meira. Yfir veturinn eru nokkur þemu tekin fyrir í hverjum námshóp og stendur vinna við þau yfir í nokkrar vikur, lengd þemanna er nokkuð mismunandi eftir viðfangsefnum.

e) Íþróttir og sund; Sund er kennt í Sundlaug Akureyrar og inniíþróttir eru í íþróttasal skólans. Nemendum er ekið í sunkennslu vikulega. Einu sinni í viku eru nemendur í íþróttum úti.

 


Bæklingur um einstaklingsmiðaða kennsluhætti