Byrjendalæsi

Byrjendalæsi
Sú kennsluaðferð sem lögð er til grundvallar í lestrarkennslu í Naustaskóla nefnist Byrjendalæsi.  Byrjendalæsi  er samvirk kennsluaðferð í læsi sem hefur verið mótuð og þróuð við Skólaþróunarsvið Háskólans á Akureyri í samvinnu við skóla á Norðurlandi undir forystu Rósu Eggertsdóttur. Viðhorf til náms og kennslu í Byrjendalæsi eru í anda hugsmíðahyggju sem gengur í raun út á það að nemendur læri með því að byggja ofan á fyrri reynslu og þekkingu. Áhersla er lögð á fjölbreytni og sveigjanleika í námsaðstæðum barnanna.

Grunnstoðir Byrjendalæsis

  • Lestur, ritun, tal og hlustun eru samofnir þættir
  • Merkingarbær viðfangsefni
  • Nám er félagslegt ferli - samvinna
  • Unnið út frá gæðatexta – alvöru bækur, alvöru texti
  • Einstaklingsmiðun í kennslu
  • Nám án aðgreiningar
  • Samvinna nemenda í námi

Góðar barnabækur er sá efniviður sem unnið er með í námi og kennslu, jafnt í tæknilegri vinnu með stafi og hljóð sem og vinnu með orðaforða og skilning.

Læsi
Hugtakið læsi hefur lengst af verið tengt lestri og skrift eða lestri og ritun. Hin síðari ár hefur inntak þess víkkað og hugtakið tekið til hinna ýmsu forma sem málið tekur á sig og hvernig þau tengjast. Í kjölfarið hefur læsi verið notað sem yfirheiti fyrri lestur, ritun, lesskilning/málskilning, tal og hlustun.

Mikilvægi læsis
Óumdeilt er í nútímasamfélagi að miklu skiptir að skólar á öllum stigum hlúi sem best að góðri færni allra nemenda í læsi, enda byggir annað nám á góðri lestrarfærni. Því er mikið í húfi að vel takist til í náminu þar sem framtíðarmöguleikar einstaklingsins eru að miklu leyti komnir undir því að skólagangan verði farsæl. Mikilvægt er að miðlun þekkingar í formi þróunar- og nýbreytniverkefna, ráðgjöf, handleiðslu, fræðslu og stuðnings við skólafólk sé aðgengileg.

Þróunarstarf
Við innleiðingu á Byrjendalæsi er stuðst við starfsþróunarlíkan sem tekur til tveggja ára. Á þeim tíma fá kennarar kennslu og öflugan stuðning við að tileinka sér aðferðina.

Þess má geta að Byrjendalæsi er einnig góður grunnur að kennsluaðferðinni Orð af orði sem verið er að innleiða á miðstigi skólans.

 (Úr kynningarbæklingi Miðstöðvar skólaþróunar við HA um Byrjendalæsi)

Smellið hér til að sjá bækling um Byrjendalæsi