Menningarfélag Akureyrar og Norðurorka bjóða 5 og 6 ára börnum á Akureyri (fæddum 2009 og 2010) á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands – Frost. Boðið er liður í samfélagsverkefni Norðurorku og Menningarfélags Akureyrar en markmið þess er að færa menninguna nær íbúum bæjarins og auka aðgengi hennar fyrir hvern sem er.
Á tónleikunum verður Greta Salóme, fiðluleikari og söngkona, í aðalhlutverki. Hún kynnir okkur fyrir starfi nútíma tónlistarmannsins sem ekki aðeins spilar verk klassísku meistaranna heldur einnig þungarokksslagara, fer í Eurovison með eigin tónsmíðar og ferðast um heiminn og spilar tónlist fyrir Disney og önnur stórfyrirtæki. Á tónleikunum brúar Greta bilið á milli þessara ólíku strauma og stefna, með fiðluna að vopni og fræðir þannig ungdóminn um töfraheim tónlistarinnar.
Sem fyrr sagði er Greta studd af Sinfóníuhljómsveit Norðurlands en einnig verða á sviðinu hrynsveit og þrír kórar auk þess sem dansarar frá Steps Dance Center taka þátt í sýningunni. Gestasöngvari á tónleikunum er Magni Ásgeirsson.
Tónleikarnir fara fram þann 17. janúar og er 5 og 6 ára börnum bæjarins boðið að koma klukkan 13:00. Gert er ráð fyrir 45 mínútna tónleikum þar sem leikið verður við öll skilningarvit áhorfenda en mikið sjónarspil mun eiga sér stað á meðan á tónleikum stendur.
Hverju barni er boðið að taka með sér einn fylgdarmann á tónleikana en því miður er ekki hægt að bæta við miðum umfram það þar sem salurinn ræður ekki við meiri fjölda.
Til þess að þiggja boðið þarf einungis að mæta í Hof þann 17. janúar, tímanlega þar sem tónleikarnir byrja klukkan 13:00.
Allar frekari upplýsingar fást í miðasölu Hofs, sími: 450-1000.
Við hlökkum til að sjá ykkur.
Fyrir hönd Menningarfélags Akureyrar
Anna Bergljót Thorarensen
Hólmatún 2 | 600 Akureyri Sími: 460 4100 Frístund: 460 4111 Netfang: naustaskoli@akureyri.is
|
|
Skrifstofa skólans er opin frá |
Tilkynningar um veikindi eða óskir um leyfi nemenda: 460 4100 / naustaskoli@akureyri.is