1. apríl !

Margir voru gabbaðir í tilefni 1. apríl í Naustaskóla.  Allflestir nemendur skólans létu glepjast af tilkynningum um "páskaeggjaleit" og var mikið leitað á skólalóðinni í hádeginu.  Starfsmenn féllu sumir fyrir fundarboði sem þeir fengu í tölvupósti og var einnig birt á heimasíðu skólans en þar var að finna svohljóðandi tilkynningu: "Fram eru komnar mjög róttækar hugmyndir um sameiningu Naustaskóla, Naustatjarnar og Kjarnalundar, sem miða að því að búa til algjörlega einstaka stofnun á landsvísu í tilraunaskyni.  Þessar hugmyndir ganga út á mun meiri aldursblöndun en við höfum áður reynt, þar sem allt starf í stofnuninni mun fara fram í aldursblönduðum hópum með mjög breiðu bili, þar sem hugmyndin er að hinir eldri annist og fræði hina yngri - og öfugt, auk þess sem ætlunin er að ná fram gríðarlegum sparnaði í starfsmannahaldi.  Af þessu tilefni er boðað til kynningarfundar í Naustaskóla föstudaginn 1. apríl kl. 15:00 á sal skólans. Til fundarins mæta fulltrúar bæjarstjórnar og ráðgjafafyrirtækisins pWC sem hefur unnið að útfærslu tillagnanna. Allir velkomnir!"