1. maí hlaup UFA

Ungmennafélag Akureyrar stendur að venju fyrir skólahlaupi 1. maí þar sem grunnskólar á Akureyri og í nærsveitum reyna með sér. Hlaupið hefur verið haldið undanfarin tuttugu ár og er eitt stærsta almenningshlaup sem haldið er á Akureyri. Megintilgangur hlaupsins er að hvetja börn og fullorðna til hreyfingar og heilbrigðra lífshátta, í skólakeppninni er því ekki keppt um það hvaða skóli á fótfráustu nemendurna heldur hvaða skóli nær hlutfallslega bestri þátttöku.

Staður – tími – vegalengdir - verðlaun
Hlaupið er haldið á Þórsvellinum. Boðið er upp á tvær vegalengdir 2 og 5 km. og einnig 400 m hlaup fyrir leikskólakrakka. Engin tímataka er í 2 km hlaupi en tekinn er tími á öllum þátttakendum í 5 km hlaupi.

Hlaupið hefst kl. 12:00. Fyrst hlaupa leikskólakrakkarnir og eftir það fer 2 km hlaupið af stað í nokkrum hópum, yngstu krakkarnir fyrst um kl. 12:10 og síðan hver aldursflokkur á eftir öðrum. 5 km hlaupið fer síðan af stað þar á eftir eða um kl. 12:30. Lýsing á hlaupaleiðum og kort eru aðgengileg á heimasíðu UFA.

Allir þátttakendur fá verðlaunapening, Greifa-pizzu og Svala að hlaupi loknu.
Útdráttarverðlaun frá Sportveri fyrir þá sem skrá sig í forskráningu.

Ekki er um einstaklingskeppni að ræða og því eru ekki veitt verðlaun fyrir fyrstu sætin í hverjum flokki. Einu verðlaunin sem eru veitt eru bikarar fyrir hlutfallslega bestu þátttökuna í annars vegar fámennum skólum (innan við 100 nemendur) og hins vegar fjölmennum skólum (100 nemendur og fleiri).

Skráning
Þar sem um stórt hlaup er að ræða og nokkuð flókna útreikninga í skólakeppninni er æskilegt að sem flestir skrái sig í forskráningu. Þeir sem skrá sig í forskráningu greiða því lægri þátttökugjöld en þeir sem skrá sig samdægurs og eiga einnig möguleika á að hreppa útdráttarverðlaun frá Sportveri.

Hægt verður að skrá sig í Sportveri á Glerártorgi frá og með fimmtudeginum 28. apríl og tekið verður við skráningum á netfangið ufa@ufa.is þá þarf að gefa upp nafn og fæðingarár þeirra sem ætla að hlaupa og vegalengd.

Þeir sem skrá sig í Sportveri, staðgreiða og fá afhent keppnisnúmer við skráningu sem þeir hafa síðan með sér í hlaupið á hlaupadag. Þeir sem skrá sig á netinu þurfa að sækja númerið sitt í Hamar á sunnudagsmorgun  milli kl. 10:00 og 11:30 og greiða þá þátttökugjaldið. Forskráningu lýkur laugardaginn 31. apríl kl. 18:00.  Eftir það er einungis hægt að skrá sig í Hamri að morgni 1. maí milli kl. 10:00 og 11:30.

Þáttökugjöld
Í forskráningu: Leikskólabörn kr. 500 - Grunnskólanemendur kr. 1000 - Fullorðnir kr. 1500
Á hlaupadag: Leikskólabörn kr. 1000 - Grunnskólanemendur kr. 1500 - Fullorðnir kr. 2000

Fjölskylduafsláttur: fjölskylda greiðir aldrei meira en 3000 kr í forskráningu, en 3.500 á keppnisdag