Seinni hluti aðalnámskrár grunnskóla fyrir einstök
greinasvið hefur verið birtur sem rafræn útgáfa á vefsíðu menntamálaráðuneytisins. Honum er bætt aftan við almenna hluta
námskrárinnar sem heitir nú: Aðalnámskrá grunnskóla almennur hluti 2011 og greinasvið 2013. Lögformleg útgáfa verður birt
í stjórnartíðindum fljótlega. Útgáfa aðalnámskrár fyrir greinasvið grunnskóla er lokaáfangi í
heildarendurskoðun á aðalnámskrám fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla sem hófst í kjölfar heildarendurskoðunar laga fyrir þessi
skólastig.
Hér má nálgast aðalnámskrána....
Aðalnámskráin fyrir greinasvið grunnskólans skiptist í 9 kafla. Fyrst er sérstakur kafli um lykilhæfni
þvert á öll greinasvið og síðan eru 8 kaflar um greinasvið fyrir námssvið og einstakar námsgreinar grunnskóla, í
samræmi við ákvæði laga um grunnskóla. Jöfnum höndum er lögð áhersla á almenna lykilhæfni og sértæka hæfni
fyrir viðkomandi grein eða svið. Í köflunum er fjallað um menntagildi og megintilgang, hæfniviðmið, kennsluhætti og námsmat. Birt eru
hæfniviðmið við lok 4., 7. og 10. bekkjar og matsviðmið við lok 10. bekkjar í flestum greinasviðum. Á grundvelli hæfniviðmiða velja
kennarar og nemendur kennsluaðferðir, námsefni og matsaðferðir og skal gera grein fyrir þeim í skólanámskrá viðkomandi
skóla.
Unnið hefur verið að útgáfu aðalnámskrárinnar fyrir greinasvið grunnskólans undanfarin tvö ár og fjölmargir hafa komið
að samningu hennar og ráðuneytið hefur auk þess haft víðtækt samráð við hagsmunaaðila við námskrárgerðina.
Aðalnámskráin verður einnig gefin út á prenti og verður send öllum grunnskólum, skólaskrifstofum, sveitarfélögum og
hagsmunaaðilum og kynnt með ýmsum hætti á næstunni.
Fjallað er um eftirfarandi þætti í köflum um lykilhæfni og greinasvið:
-
Menntagildi og megintilgang:
Í þeirri umfjöllun er tekið mið af grunnþáttum og áhersluþáttum í námi sem fjallað er um í almennum hluta
námskrárinnar.
-
Hæfniviðmið:
Gerð er grein fyrir hæfniviðmiðum sem fela í sér þekkingu og leikni innan hverrar námsgreinar eða námssviðs við lok 4. bekkjar, 7.
bekkjar og 10. bekkjar.
-
Kennsluhættir og námsmat:
Í umfjöllun um kennsluhætti og námsmatsaðferðir sem einkenna greinasviðið eru megintilgangur og hæfniviðmið höfð til
hliðsjónar.
-
Matsviðmið við lok grunnskóla:
Matsviðmið eru lýsing á hversu vel nemandi hefur skilgreinda hæfni á valdi sínu. Matsviðmiðin eiga einungis við um 10. bekk, til að
styðja við námsmat við lok grunnskóla. Gert er ráð fyrir að skólar setji matsviðmið fyrir aðra árganga og geri grein fyrir
þeim í skólanámskrá. Matsviðmiðin við lok 10. bekkjar lýsa hæfni á kvarða sem birtur er í aðalnámskrá:
Notaður er kvarðinn A, B, C, D, þar sem A lýsir framúrskarandi hæfni, B lýsir góðri hæfni, C sæmilegri hæfni og D hæfni sem
nær ekki viðmiðum sem lýst er í C.
Aðalnámskrá
fyrir greinasvið grunnskóla