Frá námsráðgjöfum grunnskólanna

Kæru foreldrar/forráðamenn nemenda í grunnskólum Akureyrar. Í grunnskólalögum nr. 91/2008 kemur m.a. fram í 13. gr.: “Nemendur eiga rétt á að njóta náms- og starfsráðgjafar í grunnskóla af til þess bærum sérfræðingum”. Á þessu skólaári hafa sjö grunnskólar á Akureyri uppfyllt þetta ákvæði laganna. Því þykir okkur náms- og starfsráðgjöfunum rétt að koma á framfæri eftirfarandi upplýsingum til foreldra/forráðamanna nemenda í þessum skólum:

Hlutverk okkar náms- og starfsráðgjafanna í grunnskólum er að standa vörð um velferð allra nemenda á sem breiðustum vettvangi. Starf okkar fer fram með ýmsum hætti, náms- og starfsfræðsla og námstækni fer oft fram í bekkjum eða hópum, hópráðgjöf er oft hentug t.d. til að miðla efni varðandi samskipti, og persónuleg ráðgjöf er alltaf stór hluti starfsins. Í persónulegri ráðgjöf er fjallað margvísleg málefni en oft eru um mál að ræða sem varða líðan, framkomu og samskipti nemenda. Þar er traust og trúnaður milli ráðgjafa og nemenda lykilþáttur en við erum að sjálfsögðu bundin þagnarskyldu gagnvart nemendum og fjölskyldum þeirra.

Verksviði náms- og starfsráðgjafa má setja upp með eftirfarandi hætti:

1.Ráðgjöf í námi:

§  Námstækni sem getur m.a. falist í fræðslu um skipulagningu, lestraraðferðir, undirbúning prófa, framkvæmd prófa, lífsstíl og lífsvenjur.

§  Persónuleg ráðgjöf og stuðningur. Ef nemendum líður ekki nægilega vel kemur oft til kasta okkar náms- og starfsráðgjafa að koma til hjálpar. Ástæður geta verið margar, t.d. samskipta- eða hegðunarvandi, einmannakennd, einelti, kvíði, streita o.m.fl.

§  Oft eru mál þess eðlis að aðstoð annarra sérhæfðari aðila er æskileg og þá vísum við málum til þar til bærra sérfræðinga, s.s. skólasálfræðings, hjúkrunarfræðings eða læknis. Samstarf við foreldra/forráðamenn, skólayfirvöld og sérfræðinga á ýmsum sviðum er nokkuð stór þáttur í störfum okkar í grunnskólunum.

2. Ráðgjöf við náms- og starfsval:

§  Náms- og starfsfræðsla eykst eftir því sem nemendur eldast og er mest í efstu bekkjunum. Þar má nefna að farið er með nemendum í gegnum námsefni í náms- og starfsfræðslu. Framhaldsnám og framhaldsskólar eru kynntir, farið er í heimsóknir í framhaldsskólana hér í bæ og náms- og starfsráðgjafar framhaldsskólanna koma einnig í heimsóknir í grunnskólana. Nemendur í 10. bekk taka áhugakönnun og koma til okkar í viðtal til þess að ræða niðurstöður hennar og framtíðaráform.

§  Starfstengt nám er samstarfsverkefni Vinnuskóla Akureyrar og skóladeildar sem við náms- og starfsráðgjafar höldum utanum fyrir hönd grunnskólanna. Því er ætlað að koma til móts við þarfir og áhuga grunnskólanemenda í 9. og 10. bekk sem af einhverjum ástæðum finna sig ekki í hefðbundnu bóknmámi skólanna.

Hér hefur verið farið yfir nokkur af helstu störfum okkar náms- og starfsráðgjafa í grunnskólum. Nemendum og foreldrum/forráðamönnum er velkomið að leita til okkur hvenær sem er, en umsjónarkennarar eru einnig oft milliliðir í því sambandi.

Í lokin langar okkur að minna á ótvírætt gildi þess að huga að hollum lífsháttum fyrir nemendur grunnskóla. Þar má nefna reglur um útivistartíma barna og unglinga, gildi reglulegs og næringarríks mataræðis og mikilvægi þess að nemendur fái nægan svefn. Góð heimasíða þar sem farið er vel yfir þessi mál er www.ummig.is þar sem sér upplýsingasíður eru fyrir börn, unglinga og foreldra. Heimasíða Lýðheisustöðvar er einnig hafsjór fróðleiks um lýðheilsu og heilbrigði www.lydheilsustod.is.

Þá höfum við þetta ekki lengra að sinni en óskum ykkur öllum og börnum ykkar góðs gegnis.

Með kveðju frá náms- og starfsráðgjöfunum;

Aðalheiður Skúladóttir, Naustaskóla,            
Erla Ingólfsdóttir, Giljaskóla
Hrönn Haraldsdóttir, Lundarskóla,                
Rakel Björk Káradóttir, Glerárskóla,
Steinunn Harpa Jónsdóttir, Brekkuskóla,       
Þuríður Anna Hallgrímsdóttir, Síðuskóla
Þuríður Lilja Rósenbergsdóttir, Oddeyrarskóla.