Fundur - kynning á rannsókn

"Forysta til náms í nýjum skóla" Sl. haust fór af stað rannsóknar- og þróunarvinna í samvinnu Birnu Maríu Svanbjörnsdóttur, doktorsnema við Menntavísindasvið HÍ, og skólastjórnenda Naustaskóla. Rannsóknin mun standa yfir þriggja ára tímabil og miðar að því að rannsaka hvort ákveðin aðferð forystu stuðli að námssamfélagi, í hverju hún felist og hvernig megi standa að henni. Upplýsinga verður aflað með ýmsu móti, s.s. með viðtölum, vettvangsathugunum, leshringjum, samræðum og niðurstöðum námsárangurs nemenda. Unnið verður að stefnumótun, hugtök skilgreind, sett verða niður viðmið um árangur, þar sem m.a. verður stuðst við niðurstöður úr viðtölum og samræmdum prófum. Ekki verða á neinu stigi rannsóknarinnar einkunnir tengdar einstaklingum eða nafngreindar upplýsingar úr viðtölum. Rannsóknin gagnast skólanum m.a. á þann hátt að skólastjórnendur á mikla endurgjöf frá rannsakanda, gagnlegar spurningar, upplýsingar og leiðbeiningar.  Þriðjudaginn 2. febrúar kl. 17:00-18:00 bjóðum við foreldrum að koma og kynna sér þetta verkefni.  Í framhaldinu mun Birna einnig leita til foreldra til að taka þátt í rýnihópum þar sem leitað verður viðhorfa um ýmislegt sem varðar skólastarfið.  Þarna er því einnig vettvangur til að hafa áhrif á skólann og mótun hans.