Göngum í skólann!

Miðvikudaginn 7. september kl. 10.00 verður Göngum í skólann sett í Síðuskóla á Akureyri en þetta er í fimmta skipti sem Ísland tekur þátt í þessu alþjóðlega verkefni. Verkefnið hófst í Bretlandi árið 2000 og hefur þátttaka stöðugt farið vaxandi. Hér á landi stefnir í  metþátttöku. Á alþjóðavísu er Göngum í skólann mánuðurinn í október og Alþjóðlegi Göngum í skólann dagurinn er 6. október. Göngum í skólann  verkefnið fer fram hér á Íslandi í septembermánuði og því lýkur á Alþjóðlega Göngum í skólann deginum þann 5. október.   Við hvetjum að sjálfsögðu alla okkar nemendur til að ganga eða hjóla í skólann, það er umhverfisvænt og eflir heilsuna! 

Meginmarkmið Göngum í skólann eru að hvetja nemendur og foreldra á Íslandi til að ganga, hjóla eða fara á annan virkan hátt  til og frá skóla. Um leið er ætlunin að:

  • Hvetja til aukinnar hreyfingar með því að auka færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann og fræða þau um ávinning reglulegrar hreyfingar.
  • Kenna reglur um  öryggi á göngu og á hjóli.
  • Draga úr umferð við skóla: Draga úr umferðarþunga, mengun og hraðakstri nálægt skólum.
  • Betra og hreinna loft ásamt öruggari og friðsælli götum og hverfi. 
  • Stuðla að vitundarvakningu um ferðamáta og umhverfismál: Hversu ,,gönguvænt“ umhverfið er og hvar úrbóta er þörf. Samfélagsvitund eykst. 
  • Hvetja til heilbrigðs lífsstíls fyrir alla fjölskylduna: Hreyfing vinnur gegn hjartasjúkdómum, offitu og sykursýki II og stuðlar að streitulosun, betri sjálfsmynd, o.fl.

Þeir sem að verkefninu standa hérlendis eru Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Landlæknisembættið, Ríkislögreglustjóri, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Umferðastofa og Landssamtökin Heimili og skóli. 
 
Nánari upplýsingar um verkefnið gefur Örvar Ólafsson verkefnastjóra hjá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands með tölvupósti  orvar@isi.is eða í s. 514-4000. Heimasíða verkefnisins er  www.gongumiskolann.is