Grenndargralið 2012

Naustaskóli tekur þátt í Leitinni að Grenndargralinu 2012  Leit nemenda að Grenndargralinu er hafin fimmta árið í röð. Þátttakendur eru nemendur í 8.-10. bekk í grunnskólum á Akureyri. Nemendur í Giljaskóla sumarið leituðu að gralinu í fyrsta skipti haustið 2008. Árið 2009 tók Síðuskóli þátt og Glerárskóli bættist í hópinn haustið 2010. Síðastliðið haust bættust þrír skólar við þegar Brekkuskóli, Lundarskóli og Oddeyrarskóli tilkynntu þátttöku sína. Naustaskóli hefur tilkynnt þátttöku sína og því aldrei að vita nema Grenndargralið verði geymt í verðlaunaskáp skólans næsta árið.
Takmark þátttakenda er að finna bikar, hið svokallaða Grenndargral, sem búið er að koma fyrir á vissum stað á Akureyri. Leitin að gralinu tekur 10 vikur og hún fer þannig fram að nemendur, ýmist einir eða tveir saman, fá eina þraut til lausnar í viku hverri. Þraut sem tengist sögu eða menningu Akureyrar og/eða Eyjafjarðar.Við lausn hverrar þrautar fá nemendur einn bókstaf. Markmið þeirra er að safna að lágmarki tíu bókstöfum sem fást við úrlausn þrautanna sem þeir svo nota til að mynda ákveðið orð. Orðið er nokkurs konar lykilorð og er þekkt úr sögu Eyjafjarðar. Þegar krakkarnir ná að raða saman bókstöfunum og mynda sjálft lykilorðið öðlast þeir rétt til að hefja leit að Grenndargralinu.

 Þrautirnar tíu munu birtast á heimasíðu Leitarinnar á föstudögum auk þess sem fréttir og tilkynningar munu birtast á facebook-síðu Leitarinnar. Öll vinna nemenda fer fram utan skólatíma og því er um frjálsa þátttöku að ræða. Allar upplýsingar um Leitina má finna á heimasíðu verkefnisins www.grenndargral.is.

Framundan eru 10 vikur fullar af spennandi viðfangsefnum og ljóst að keppnin harðnar með hverju árinu. Við viljum hvetja foreldra og aðra sem koma að uppeldi þeirra sem taka þátt í Leitinni til að aðstoða þau við úrvinnslu þrautanna. Leitin er góður vettvangur fyrir fjölskylduna að koma saman og vinna að sameiginlegu verkefni þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Allir geta tekið þátt.

Umsjónarmaður Leitarinnar í Naustaskóla er Anna María Sigurðardóttir kennari á unglingastigi.