Hugmyndasamkeppni um umhverfismál

Við í Naustaskóla erum að vinna að því að verða skóli á grænni grein sem er alþjóðlegt verkefni, til að auka umhverfismennt og styrkja umhverfisstefnu í skólum okkar. Þeir skólar sem vilja komast á græna grein í umhverfismálum leitast við að stíga "skrefin sjö" en það eru ákveðin verkefni sem efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál. Verkefnin eru bæði til kennslu og til að bæta daglegan rekstur skólans. Þegar því marki er náð fá skólarnir leyfi til að flagga Grænfánanum næstu tvö ár en sú viðurkenning fæst endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi. Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Okkur langar að eignast táknmynd fyrir verkefnið okkar og ætlum því að leita til nemenda skólans og standa fyrir samkeppni um Umhverfisveru Naustaskóla.Samkeppninni er skipt í þrjá hluta: 1. Teikning af umhverfisverunni 2. Nafn á umhverfisveruna 3. Slagorð fyrir umhverfisátak Naustaskóla Vegleg verðlaun verða veitt fyrir alla þrjá flokkana á Vorhátíð skólans þann 28. maí næstkomandi. Skilafrestur er til 23. maí til umsjónarkennara.