Láttu drauminn rætast - fyrirlestur fyrir foreldra nemenda í 10. bekk

Þorgrímur Þráinsson
Þorgrímur Þráinsson
Fræðslufyrirlestur fyrir foreldra nemenda í 10. bekk verður haldinn miðvikudaginn 22. janúar kl. 20.00 í sal Brekkuskóla en þarna er um að ræða sameiginlegt framtak foreldrafélaga Nausta-, Brekku-, Lundar- og Oddeyrarskóla.  Fyrirlesari er Þorgrímur Þráinsson en eins og margir vita hefur hann haldið fyrirlestra undanfarna vetur fyrir alla nemendur 10. bekkjar á landinu undir yfirskriftinni: Láttu drauminn rætast!

Í fyrirlestrinum segir hann lífreynslusögur af Ólafi Stefánssyni handboltakappa, Gylfa Sigurðssyni hjá Tottenham og handalausum tennisleikara, svo fátt eitt sé nefnt. Auk þess fjallar hann um mikilvægi þess að nemendur beri ábyrgð á eigin lífi og árangri, kenni ekki öðrum um. Hann hvetur þá til að eflast við mótlæti, hjálpa til á heimilinu, eiga falleg samskipti við foreldra og aðra, hrósa, gera góðverk og hann teiknar upp hvernig nemendur geta farið út fyrir þægindahringinn, skorað sjálfa sig á hólm.

Undir lok tímans setja nemendur sér skrifleg markmið og þeir fá fjórblöðung með ,,Hjóli lífsins" (sjálfspróf) og á blaðinu eru ennfremur tíu dæmi um hvað þarf að gera til að verða ástfanginn af lífinu. Þá sýnir hann fjögur myndbönd sem ættu að hvetja nemendur til að láta gott af sér leiða.

Sú hugmynd hefur oft verið viðruð að foreldrum stæði sami fyrirlestur til boða svo hægt væri að halda umræðunni áfram heimafyrir og hreinlega til að upplýsa foreldra um hvað hann ræðir við unglingana. Í ljósi þess vill hann bjóða foreldrum nemenda í 10. bekk upp á fyrirlesturinn Láttu drauminn rætast!

Fyrirlesturinn fyrir nemendur í 10. bekk í Naustaskóla fer fram 30. janúar nk.