Viðburðarríkri en stuttri nemendaviku er senn lokið. Á miðvikudaginn var nemendadagur sem hefð er fyrir í Naustaskóla. Um morguninn voru settar upp ýmsar skemmtilegar stöðvar í skólanum, m.a. kom Guðrún Huld danskennari til okkar og var með danssmiðju. íþróttakeppni var haldin milli nemenda í 10. bekk og starfsfólks skólans í fótbolta, körfubolta og blaki. Nemendur báru sigur úr bítum í fótbolta en starfsfólk vann bæði körfuboltakeppni og blak. Að þessu sinni tóku nemendur þátt í hæfileikakeppni og er skemmst frá því að segja að þátttaka þar var mjög góð. Greinilegt er að nemendur eru metnaðarfullir og lögðu sig vel fram. Dómnefnd keppninnar var skipuð af nemendum og starfsfólki skólans. Þetta er vandasamt verkefni en velja þurfti þrjú atriði í efstu sæti: Í þriðja sæti urðu stúlkur úr þriðja bekk sem voru með leikþátt en það voru þær Tinna G, Tinna Karítas, Jóhanna, Katrín, Rakel og Ýr. Í öðru sæti var drengur úr fimmta bekk, Gísli Ólafsson með söngatriði og svo í fyrsta sæti drengur í 10. Bekk, Eiður Reykjalín sem spilaði einleik á píanó. Gaman er að sjá hvað nemendur eru að fást við utan skólans og hvað þau eru hæfileikarík á mörgum sviðum sem endurspeglar m.a. aðkomu foreldra í að mennta börnin sín og styðja við þeirra áhugasvið. Dagurinn endaði svo með góðri pylsuveislu. Hér má sjá myndir frá deginum.
Hólmatún 2 | 600 Akureyri Sími: 460 4100 Frístund: 460 4111 Netfang: naustaskoli@akureyri.is
|
|
Skrifstofa skólans er opin frá |
Tilkynningar um veikindi eða óskir um leyfi nemenda: 460 4100 / naustaskoli@akureyri.is