Nokkur hagnýt atriði

Foreldrum hefur nú verið sendur tölvupóstur með nokkrum hagnýtum atriðum varðandi skólabyrjunina. Sjá nánar hér að neðan..

Til foreldra og forráðamanna nemenda við Naustaskóla

Nokkur hagnýt atriði varðandi skólabyrjunina.

Því miður sjáum við okkur ekki fært að bjóða upp á hafragraut á morgnana núna alveg fyrstu dagana. Við auglýsum þegar við hefjum þá þjónustu en það er ekki víst að það verði fyrr en við höfum fengið allt húsnæðið afhent...

Lykilorð að vefnum mentor.is eiga nú að hafa borist þeim foreldrum nemenda í 1. bekk sem ekki eiga líka eldri börn og hafa því væntanlega ekki áður haft aðgang að mentor. Hjá öðrum gilda sömu lykilorð og þeir hafa áður haft. Vanti aðra lykilorð (eða þau glatast) er hægt að snúa sér til ritara skólans með tölvupósti (naustaskoli@akureyri.is) eða í síma 460-4100.

Sundkennsla hefst í næstu viku, sundkennari biður um að nemendur mæti í sundfatnaði sem ekki aftri sundi (t.d. er ekki gott að synda í mjög síðum buxum eða efnislitlum bíkíníklæðnaði)

Íþróttakennsla verður alfarið útikennsla til að byrja með, við gerum ráð fyrir að upp úr miðjum september förum við svo að fara í KA heimilið einu sinni í viku, við auglýsum þegar að því kemur.  Þangað til biðjum við um að nemendur mæti klæddir til útiveru, þó að við leitum kannski skjóls ef gerir mjög vont veður...   Þegar kemur að innikennslu í íþróttum þurfa nemendur í 4.-7. bekk að hafa inniíþróttaskó en gert er ráð fyrir að yngri nemendur verði berfættir.

Við mælumst til þess að nemendur í 1.-3. bekk komi ekki einir á hjóli í skólann, að hjól verði geymd norðan við skólahúsið (við leiðbeinum krökkunum með þetta) og að ekki verði hjólað á skólalóðinni á skólatíma enda verður lóðin mjög lítil fyrstu dagana...
Gervigrasinu hefur enn seinkað og er nú gert ráð fyrir að það verði lagt á völlinn á fimmtudag.

Skv. upplýsingum frá framkvæmdadeild bæjarins verður unnið að merkingum og málun gangbrauta í nágrenni skólans á allra næstu dögum.  Við munum nú fara að hafa samband við foreldra sem tóku jákvætt í að sinna gangbrautavörslu, til að manna gangbraut á Kjarnagötu þar sem göngustígur milli Naustaskóla og Naustatjarnar mætir götunni.  Foreldrum barna sem búsett eru vestan Kjarnagötu er bent á að beina börnum sínum yfir götuna á þessum stað. Við skoðum svo hvort þörf er á gangbrautavörslu víðar.

Þá sem ekki hafa enn greitt gjald vegna námsgagna fyrir nemendur biðjum við að leggja inn sem fyrst, 3500 kr. fyrir nemanda í 1.-3. bekk en 3000 kr. fyrir nemanda í 4.-7. bekk.  Reikningsnúmerið er 1105-15-200070, kt. 070372-5099.

Gert er ráð fyrir að skólaakstur úr innbænum hefjist á fimmtudag, foreldrar þeirra nemenda sem eiga kost á þeim akstri fá væntanlega tölvupóst um þetta á morgun.

Tónlistarskólinn hefur kennslu í næstu viku, við gerum ráð fyrir að kennsla á vegum Tónak geti að hluta til farið fram innan veggja skólans en unnið er að skipulagningu þeirra mála.

Annars er bara gott hljóð í okkur og við bíðum spennt eftir að hefjast handa með krökkunum... unnið hefur verið af krafti í húsinu síðustu daga og það er nú að verða allt hið skólalegasta á að líta!

Bestu kveðjur,
Ágúst skólastjóri