Samræmdur matseðill

Um áramótin kom til framkvæmda breyting á skólamatseðlum leik- og grunnskóla bæjarins. Um tilraunaverkefni er að ræða þar sem ákveðið var að hafa sama matseðil í öllum skólunum. Meginmarkmiðið með þessari breytingu er að tryggja að öllum skólabörnum standi til boða hollur og næringarríkur hádegisverður. Matseðillinn nær yfir sjö vikur í senn og er hann aðgengilegur hér á heimasíðunni undir hlekknum skólinn/mötuneyti.  Þar er hægt að skoða matseðilinn fyrir hvern dag en einnig að sjá innihaldslýsingu máltíða og þegar fram líða stundir verður hægt að sjá útreiknað næringargildi matarins. Matseðlarnir og innihaldslýsingarnar hafa verið unnar af sérfræðingum.

Tilgangurinn með þessum breytingum er að gera foreldrum kleift að fylgjast vel með þeirri næringu sem skólinn býður upp á. Undanfarin ár hafa einnig borist ábendingar frá foreldrum sem eiga börn bæði í leik- og grunnskólum bæjarins þess efnis að oft geti verið erfitt að samræma matseðla heimilanna við matseðla skólanna. Er vonast til að tilraunaverkefni þetta komi til móts við óskir þessara foreldra. Matseðla uppskriftir og upplýsingar um næringargildi má skoða á slóðinni http://akmennt.is/matur.

Akureyrarbær hefur gert samning við birgja er annast sölu á kjötvörum, fiski, ávöxtum og grænmeti. Með þeim samningi er reynt að tryggja gæði og ferskleika þeirrar vöru sem boðið er upp á í hvert sinn, þar sem bærinn gerir ákveðna kröfu um gæði og ferskleika. Samið hefur verið við sérfræðinga um eftirlit með gæðum hráefnisins.

Ólöf Erla Ingólfsdóttir matráður í leikskólanum Iðavelli vann uppskriftirnar og setti saman  matseðlana.

Guðrún Adolfsdóttir matvælafræðingur hjá Rannsóknarstofunni Sýni yfirfór matseðlana og skoðaði þá m.t.t. útboðs. fjölbreytni og ráðleggingar Landlæknisembættisins – Lýðheilsustöðar.

Rannsóknar stofnunin Prómat mun taka að sér að fylgjast með gæðum hráefnisins.