Siljan - myndbandasamkeppni

Barnabókasetur stendur nú fyrir myndbandasamkeppni fyrir nemendur í 5.-10. bekk í grunnskólum við Eyjafjörð. Markmiðið er að hvetja börn og unglinga til að lesa og tjá sig um bækurnar sem þau lesa. Nemendur geta unnið einir eða í hópi og hafa frjálsar hendur um efnistök, aðalatriðið er að þeir lesi og noti hugmyndaflugið og tæknina. Fjalla skal um eina barna- eða unglingabók að eigin vali í hverju myndbandi. Bókin þarf að hafa komið út á íslensku á árunum 2012-2014. Myndböndin skulu vera 2-3 mínútur að lengd. Vista skal myndböndin á youtube.com og senda slóðina og upplýsingar um höfunda til barnabokasetur@unak.is. Skilafrestur rennur út 2. apríl. Sjá nánar á amtsbok.is/siljan.

Öll myndböndin verður því hægt að sjá á netinu. Valin myndbönd verða jafnframt tengd við einn fjölsóttasta vef landsins,gegnir.is þar sem þau munu koma að góðum notum þegar börn og unglingar leita sér að lesefni.

Verðlaun:

  1. verðlaun: 25.000 krónur.
  2. verðlaun: 15.000 krónur.
  3. verðlaun: 10.000 krónur.

Auk þess fær skólasafnið í skóla sigurvegarans 100 þúsund króna bókaúttekt frá Félagi íslenskra bókaútgefenda.

Siljan hlaut styrk úr Barnamenningarsjóði. Barnabókasetur er samstarfsverkefni Háskólans á Akureyri, Amtsbókasafnsins og Minjasafnsins á Akureyri. Umsjón með verkefninu er í höndum stjórnar Barnabókasetursins sem skipuð er Brynhildi Þórarinsdóttur, rithöfundi og dósent við Háskólann á Akureyri, Haraldi Þór Egilssyni safnstjóra Minjasafnsins á Akureyri og Hólmkeli Hreinssyni Amtsbókaverði.