Skólahjúkrunarfræðingur

Ingibjörg S. Ingimundardóttir hefur verið ráðin skólahjúkrunarfræðingur við Naustaskóla.  Ingibjörg er starfandi skólahjúkrunarfræðingur við Oddeyrarskóla en mun einnig þjóna Naustaskóla í hlutastarfi. Heilsugæslustöðin á Akureyri annast skólahjúkrun og ræður skólahjúkrunarfræðinga að grunnskólum bæjarins. Hlutverk heilsugæslu í skólum er að sinna heilsuvernd nemenda. Þetta er gert með reglubundnum skimunum og eftirliti, fræðslu og teymisinnu kringum einstaka mál. 
Heilsugæsla í skólum er framhald ung- og smábarnaverndar. Starfsemi skólaheilsugæslu er skv. lögum, reglugerðum og tilmælum er um hana gilda. Hún er meðal annars fólgin í reglulegum heilsufarsathugunum, ónæmisaðgerðum, heilbrigðisfræðslu og ráðgjöf til nemenda, foreldra og starfsfólks skólans. Á heimasíðu Miðstöðvar heilsuverndar barna http://www.heilsugaeslan.is/?PageID=24 má finna nánari upplýsingar um heilsugæslu í skólum og ráðleggingar til foreldra um heilbrigðistengd málefni.

Þróun og breytingar í samfélaginu undanfarin ár hafa kallað á breytingar varðandi viðfangsefni og áhersluþætti skólaheilsugæslunnar. Um áhersluþætti skólaheilsugæslunnarmá lesa nánar á áðurnefndri heimasíðu Miðstöðvar heilsuverndar barna.

Skipulögð heilbrigðisfræðsla og hvatning til heilbrigðra lífshátta á nú að jafnaði að taka meiri tíma af starfi skólahjúkrunarfræðings. Byggt er á hugmyndafræðinni um 6-H heilsunnar sem er samstarfsverkefni skólaheilsugæslunnar og Lýðheilsustöðvar. Eftir fræðslu fær barnið fréttabréf með sér heim.  Þá gefst foreldrum kostur á að ræða við börninum það sem þau lærðu og hvernig þau geti nýtt sér það í daglegu lífi.