Þjóðfundur um menntamál

Þjóðfundur um menntamál 2010 verður haldinn laugardaginn 13. febrúar kl. 9:30-15:30. Fundurinn er í beinu framhaldi af Þjóðfundi 2009 og byggir á hugmyndafræði hans. Á þjóðfundi um menntamál er ætlunin að stíga markviss skref í átt að mótun stefnu þjóðarinnar í málum er varða menntun íslenskra barna á leik- og grunnskólastigi. Í stuttu máli verður viðfangsefni fundarins þríþætt: • að fá fram gildi sem liggja ættu til grundvallar menntunar á leik- og grunnskólastigi
• að skilgreina helstu markmið menntastarfsins
• að gera tillögur um aðgerðir (breytingar, verkefni, ákvarðanir)
Fyrirkomulagið verður svipað og á Þjóðfundi 2009 en sérstök áhersla lögð á að marka þær leiðir sem hægt er að fara að settum markmiðum. Eftir fundinn verður aðaltillögu hvers umræðuhóps um aðgerðir komið markvisst á framfæri við þá sem málið varðar. Samtals verður þar um að ræða 40 ígrundaðar tillögur sem snerta mál sem brenna á þátttakendum. Gert er ráð fyrir að þátttakendur fundarins verði um 300 og að helmingur þeirra verði foreldrar og hinn helmingurinn fagmenn úr ýmsum áttum. Þeir sem standa að fundinum hafa mikinn áhuga á því að hópurinn sé sem fjölbreyttastur varðandi aðstöðu, reynslu, sjónarhorn og fleira. Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu fundarins, www.menntafundur.ning.com. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt þurfa að fara inn á skráningarsíðu fundarins - www.menntafundur.eventbrite.com- og svara nokkrum spurningum. Hægt er að fara inn á skráningarsíðuna af heimasíðunni. Áhugasamir eru hvattir til að skrá sig sem fyrst. Þann 26. janúar verður byrjað að velja þátttakendur en áfram verður opið fyrir skráningu.
Með kærri kveðju,
undirbúningsnefndin.