Útivistardagur á miðvikudag (2. sept)

Nú er veðurspáin aldeilis bærileg og við skellum því á útivistardegi miðvikudaginn 2. september.  Skólatími nemenda verður eins og venjulega, nemendur mæta kl. 8:10 á sín heimasvæði, þeim verður svo skipt í hópa og brottfarir eru uppúr kl. 8:30. Allir nemendur þurfa að vera mjög vel klæddir og skóaðir til útiveru! Það er frjálst nesti þennan dag en þeir sem eru í ávaxtaáskrift geta gripið sér ávöxt í nesti áður en lagt er af stað. Þeir sem fara að veiða þurfa að koma með sinn eigin útbúnað nema að við reynum að útvega björgunarvesti. Þeir sem fara upp að Hömrum og vilja sulla þurfa að koma með aukaföt!! Gönguferðir eru gönguferðir - þar er ætlast til að nemendur gangi en hjóli ekki. Þeir sem ganga á Hlíðarfjall þurfa sérstaklega að huga að útbúnaði og nesti! Skóladegi lýkur að loknum hádegisverði / kl. 13:00 Foreldrar eru að sjálfsögðu velkomnir með í allar ferðir. Nemendur velja sér viðfangsefni sem hér segir: 1. bekkur verður í sér verkefni

Göngutúr Glerárgil - 4. bekkur og eldri.
Farið með hópinn gangandi frá Naustaskóla. Gengið að Glerárbrú við Hlíðarbraut. Gengið meðfram gilinu niður að Glerártorgi. Þaðan inn í miðbæ og tekinn strætó heim. Heimkoma 11:30 -12:30.

Göngutúr Fálkafell - 4. bekkur og eldri
Farið með rútu frá Naustaskóla kl. 8:30 og eins langt að Fálkafelli. Þaðan gengið að Gamla og síðan niður að Hömrum og svo að Naustaskóla. Áætluð heimkoma 12:00 - 12:30.

Göngutúr upp Hlíðarfjall - 6. bekkur og eldri.
Farið frá Naustaskóla með rútu kl. 8:30 upp að skíðaskála. Gangan tekur um þrjár og hálfa til fjórar klst. Allir sem ganga þurfa að snúa við eftir 2 klst. óháð því hvort þau séu komin alla leið upp. Áætluð heimkoma kl. milli 12:30 og 13:00

Veiða á bryggjunni - 4. bekkur og eldri.
Farið frá Naustaskóla kl. 8:30 á Torfunesbryggja. Má fara hjólandi eða með strætó. Áætluð heimkoma kl. 12:00

Hjólatúr meðfram Eyjafjarðará og sund á Hrafnagili - 6. bekkur og eldri.
Lagt af stað frá Naustaskóla kl. 8:30. Hjólað hringinn. Nesti borðað á Hrafnagili. Þarf að taka með sundföt. Áætluð heimkoma kl. 12:00-12:30.  Allir þurfa að vera með hjálm, án undantekninga.

Hjólatúr og þrautir. - 2.-3. bekkur
Lagt af stað kl. 8:40. Hjólaður hringur um hverfið. Þrautabraut, torfærur og umferðarreglur. Nestistími kl. milli 9:30 og 10:00. Matur kl. 12:00.   Allir þurfa að vera með hjálm, án undantekninga.

Naustaborgir og Hamrar. 2. -10. bekkur
Lagt af stað kl. 8:30 frá Naustaskóla, gangandi (það er ekki leyfilegt að hjóla) upp í Naustaborgir. Þar verður gengið um, leikið og borðað nesti. Kl. 10:00 er svo komið á Hamra og leikið þar tl kl. 11:30. Leikir, folf, bátar o.fl. Nestistími kl. milli 9:30 og 10:00. Áætluð heimkoma kl. 12:00 - 12:30.  Ath: Það er gengið fram og til baka.

Hjólabretti, hlaupahjól, línuskautar og hjól við Sólborg 2.-10. Bekkur
Farið frá Naustaskóla kl. 8:30. Farið hjólandi, gangandi, eða á brettum upp á Sólborg. Nesti áætlað um kl. 10:00. Áætluð heimkoma milli kl. 12:00 og 12:30.  Allir þurfa að vera með hjálm, án undantekninga