Útivistartíminn - seglar frá Samtaka

  Samtaka eru samtök foreldrafélaga á Akureyri. Tilgangur Samtaka er að styrkja rödd foreldra sem hagsmunahóps í sveitarfélaginu og sameina krafta þeirra til góðra verka í skólamálum, meðal annars með því að auka samskipti milli foreldra og grunnskóla. Einnig hefur Samtaka beitt sér í forvarnarstarfi og fræðslu fyrir foreldra. Foreldrum/forráðamönnum er bent á facebook síðu Samtaka „Samtaka – Svæðisráð foreldra nemenda í grunnskólum Akureyrar" til að fylgjast með starfinu. Eitt af þeim málum sem koma upp á hverju hausti er umræða um útivistartíma barna. Samtaka er umhugað um að útivistartími, sem bundinn er í lög, sé virtur til að tryggja eins og kostur er að börn njóti nauðsynlegrar hvíldar og séu sem best búin til að takast á við þau verkefni sem bíða á degi hverjum. Eins og eflaust mörg okkar þekkja þá er vinsælt hjá börnunum að segja að allir nema hann/hún megi vera lengur úti til að pressa á foreldra/forráðamenn að gefa slaka og leyfi lengri útivistartíma. Mörgum foreldrum/forráðamönnum reynist þessi barátta erfið. Samtaka í samstarfi við Samfélags- og mannréttindanefnd Akureyrarbæjar hefur látið útbúa 1600 ísskápasegla eins og sjá má hér til hliðar. Seglarnir verða afhentir öllum nemendum í 1. til 6. bekk í öllum skólum í viku 13.  Það er von Samtaka að seglarnir fái fastan samastað á hverju heimili og að átakið auki samstöðu foreldra/forráðamanna í að virða útivistarreglurnar.