Já það er oft fjör á öskudaginn... :)
Ágætu foreldrar,
Nú styttist í að litlar kynjaverur birtist snemma að morgni á götum bæjarins í öllum regnbogans litum. Öskudagurinn, dagur
litadýrðar og gleði er 17. febrúar nk.
Minjasafnið á Akureyri, Punkturinn og Grasrót – Iðngarðar ætla að bjóða öllum foreldrum á Akureyri að taka þátt
í saumakompu sem starfrækt verður í Zontasalnum Aðalstræti 54 A laugardaginn 13. febrúar frá kl. 10 – 16. Þar fá foreldrar
tækifæri til þess að koma saman og sauma eða breyta fötum fyrir Öskudaginn. Á sama tíma verður trésmíðaverkstæðið
í Iðngörðum á Hjalteyragötu 20 (gamli Slippurinn) opið fyrir þá sem þurfa smíða í tilefni af öskudegi og verða
smiðir þar öllum til aðstoðar.
Sá háttur verður á að foreldrar koma með það efni sem þarf til að gera búning. Á staðnum verða fáeinar
saumavélar og því æskilegt að sem flestir geti lagt til vélar. Í Iðngörðum verður hinsvegar hægt að nálgast
ýmiskonar timbur gegn vægu verði.
Okkur vantar þó hjálp. Þeir foreldrar sem mögulega geta komið með saumavélar og aðstoðað þá sem ekki hafa slík tæki
undir höndum eða hafa kunnáttu sem þeir geta deilt eru beðnir að hafa samband við Kristinn í síma 618-9015 eða í gegnum
tölvupóst
verkefnastjori@grasrotak.is
Minjasafnið á Akureyri sýnir gamla heimagerða öskudagsbúninga í febrúar. Þetta er hluti af sýningu safnsins Allir krakkar, allir krakkar
... líf og leikir barna. Á sýningunni gefur að líta heimagerða búninga sem ýmist hafa
verið lánaðir á sýninguna eða eru úr fórum safnsins. Einnig eru til sýnis gamlir öskupokar frá því snemma á
síðustu öld, tunnukóngsmerki og ýmsir gripir sem notaðir voru í öskudagsliðunum.
Sýningin er opin alla laugardaga til 6. mars frá 14-16.
Stoðvinir Minjasafnins munu sýna milli kl 14 og 16 á laugardaginn 13. feb í Zontasalnum hvernig á að gera bolluvendi og öskupoka.