Viðurkenningar skólanefndar afhentar

Verðlaunahafar skólanefndar 2013
Verðlaunahafar skólanefndar 2013
Þann 27. júní afhenti skólanefnd Akureyrarbæjar viðurkenningar þeim nemendum og starfsmönnum við skóla Akureyrarbæjar sem þótt hafa skarað fram úr á einhvern hátt á liðnu skólaári. Þetta er í fjórða sinn sem skólanefnd stendur fyrir samkomu sem þessari en hún er í samræmi við áherslur í skólastefnu Akureyrarbæjar.  Veittar voru 9 viðurkenningar til nemenda og 7 til starfsmanna og getum við í Naustaskóla svo sannarlega verið stolt af okkar fólki því af þessum hópi voru þrír nemendur og einn starfsmaður úr okkar röðum.  Það voru: Ágúst Logi Valgeirsson, sem hlaut viðurkenningu fyrir hjálpsemi og stuðning við yngri nemendur. Freyr Jónsson, sem hlaut viðurkenningu fyrir að stuðla að öryggi yngri barna við skólabyrjun. Sædís Eiríksdóttir, sem hlaut viðurkenningu fyrir framfarir og þrautseigju í námi og framlag til að bæta skólaanda. Magnús Jón Magnússon kennari sem hlaut viðurkenningu fyrir umsjón með „First lego“ tækni- og hönnunarkeppni grunnskólabarna. Við óskum okkar fólki innilega til hamingju og erum afar stolt af þeim!