Vígsla Naustaskóla - fréttatilkynning

Skólinn í byggingu síðla vetrar 2009
Skólinn í byggingu síðla vetrar 2009
Laugardaginn 28. nóvember er haldið upp á byggingu fyrri áfanga Naustaskóla með formlegri vígslu húsnæðisins. Undirbúningur að byggingu grunnskóla í Naustahverfi hófst í byrjun árs 2006. Fengnir voru til samstarfs fulltrúar ýmissa hópa úr samfélaginu í hugarflugsvinnu og leitaðist vinnuhópurinn við að tengja saman í eina heild skipulag skólastarfsins, hönnun byggingar og þátttöku grenndarsamfélags í námi og starfi nemenda. Skýrsla vinnuhópsins var grundvöllur hönnunarforsagnar fyrir skólabygginguna en niðurstaða hans var var að við hönnun skólans skyldi horfa til þess að húsnæðið hentaði skólastarfi sem miðar að einstaklingsmiðuðu námi og var horft m.a til Ingunnarskóla í Reykjavík. Hugmyndafræðin felst í því að hugsa nútímalega og til framtíðar og vera óhrædd við að brjóta aldagamlar hefðir. Lögð var áhersla á að tengja skólastarfið við atvinnulífið og það sem er að gerast í samfélaginu og nýta upplýsingatækni eins og kostur er. Við hönnunina var m.a. lögð áhersla á eftirfarandi atriði:
  • Opinn skóli
  • Miðstöð hverfisins
  • Húsnæðið bjóði fólk velkomið
  • Góð tengsl við umhverfið og íbúa
  • Bygging hönnuð sem sjálfbærar einingar sem umlykja miðlægt fjölnotarými
  • Gott flæði milli eininganna og miðrýmis
  • Stjórnunarsvæði við aðalinngang
  • Fjölbreytileiki í rýmismyndun
  • Gott flæði milli inni- og útisvæða
  • Tengsl við leikskóla
  • Góð hljóðvist 
Áhersla var lögð á að byggingin yrði þannig útfærð að allir fyndu sig velkomna sem þangað sæktu og að skólinn yrði einskonar hverfismiðstöð Naustahverfis. Á lóðinni er starfandi leikskólinn Naustatjörn og við hönnunina var reiknað með að skólastigin geti unnið saman sem ein heild.

 Fyrri áfangi Naustaskóla var boðinn út í mars 2008. Sex tilboð bárust í verkið og var gengið til samninga við lægstbjóðanda, SS Byggir ehf. Það húsnæði sem nú er tekið í notkun er tveggja hæða bygging sem er hönnuð sem heimasvæði nemenda en mun til bráðabirgða einnig hýsa leikskóladeild, stjórnunarrými, bókasafn og fleira sem fær sinn stað í seinni áfanganum. Framkvæmdum á lóð er skipt í tvo áfanga og er þeim fyrri nú lokið. Í honum felst frágangur á hluta af bílastæðum sem eru staðsett vestan hússins, gras- og leiksvæði austan og norðan húss ásamt uppsetningu á leiktækjum, boltavelli og gervigrasvelli.
Heildarstærð lóðar er u.þ.b. 21,000 m². Heildarstærð byggingar verður 6,200 m² þegar skólinn verður fullbyggður. Bygging fyrri áfanga er 2,340 m². Lóðafrágangur fyrri áfanga er u.þ.b. 7500 m². Kostnaður við fyrri áfanga verksins er um 940 milljónir króna og búnaðarkaup um 70 milljónir.

Skólastarf í Naustaskóla hófst 24. september sl. og þá hófu 153 nemendur í 1.-7. bekk skólagöngu í skólanum, en hann mun vaxa um einn árgang á ári næstu þrjú árin uns hann verður orðinn heildstæður grunnskóli með nemendur í 10 árgöngum. Starfsmenn við skólann eru alls 25 fyrsta árið, í mismunandi stöðugildum. Í skólastarfinu er leitast við að fylgja þeim línum sem lagðar voru strax í upphafi við hönnun skólans.  Nemendum er kennt að mestu í aldursblönduðum hópum og ber teymi kennara ábyrgð á kennslu hvers hóps.  Lögð er áhersla á sveigjanleika í hópaskiptingu og samvinnu með það að markmiði að hæfileikar bæði nemenda og starfsmanna fái að njóta sín sem best. 
Skólastarfið hefur farið vel af stað og er hugur í þeim sem við skólann starfa að halda áfram að þróa skólann í samstarfi við foreldra og nemendur.

Í tilefni af vígslu skólans er opið hús í skólanum fyrir íbúa bæjarins kl. 14-17.