14.10.2015
Síðastliðinn föstudag og fram á liðna helgi varð töluverð umfjöllun í ýmsum
netmiðlum sem snerti nemendur við Naustaskóla. Má segja að þar hafi m.a.
verið dregin upp sú mynd af skólanum að þar fengi einelti og ofbeldi að
viðgangast óáreitt og að starfsfólk skólans bregðist lítt við ef slíkir
atburðir koma upp. Fátt er fjær sanni enda má þar t.d. benda á að könnun
Skólapúlsins sl. vor sýndi að mat foreldra á líðan nemenda í skólanum er fyrir
ofan landsmeðaltal og einnig má nefna að í þeim tilfellum sem grunur vaknar um
einelti er meiri ánægja með viðbrögð skólans en almennt gerist. Þessar
niðurstöður og fleiri sem varða skólastarfið geta áhugasamir nálgast á
heimasíðu skólans. Umfjöllunin orkaði verulega tvímælis enda höfðu netmiðlarnir ekki fyrir því að
leita eftir sjónarmiði eða skýringum skólans. Mál af því tagi sem um ræðir eru
alltaf viðkvæm og flókin og því eðlilegt að á þeim séu að minnsta kosti tvær
hliðar sem lýsa þarf ef fjalla á um málin á tæmandi hátt, hins vegar er það
afar erfitt fyrir skóla vegna persónuverndarsjónarmiða.Skóli og foreldri drengsins sem um ræddi funduðu þegar sl. mánudag og fóru yfir
málin og munu vinna saman að því að tryggja velferð hans, enda það sem mestu
máli skiptir. Ágúst Jakobsson skólastjóri