24.02.2016
Boðað er til málþings í Hofi miðvikudaginn 9. mars kl. 16:30-19:00 en markmiðið með þinginu er að móta viðmið um skjátímabarna og unglinga á Akureyri og þar horft til góðs árangurs af útivistarreglum fyrir sama aldurshóp. Mikilvægt er að hafa í huga að þessi viðmið geta gagnast jafnt börnum, unglingum sem og fullorðnum, því flest þekkjum við þá tilfinningu að við eyðum óhóflegum tíma við skjá. Dagskráin byggir á kynningu á viðfangsefninu og síðan
umræðu þátttakenda í hópum. Gert er ráð fyrir að málþingið leggi fram sameiginlega tillögu að viðmiðunum um skjátíma sem fara í kynningu og síðan til
loka úrvinnslu hjá Samtaka – samtökum foreldrafélaga á Akureyri og Samfélags- og mannréttindaráði, sem standa saman að útgáfu þeirra og kynningu.
Allir velkomnir
Komum saman og mótum samfélagssáttmála um skjátíma.
Skráning á Facebook síðu verkefnisins.
Facebook: https://www.facebook.com/vidmid/
Twitter #skjatimi
Lesa meira
21.02.2016
Einn af föstu liðunum í skólastarfinu hjá okkur er hæfileikakeppni nemendaráðs sem haldin er á hverju ári. Að þessu sinni var hún haldin föstudaginn 19. febrúar og voru átta atriði sem kepptu til úrslita, en í verðlaun voru að vanda veglegir vinningar. Að lokum fór svo að það var Vilhjálmur Sigurðsson í 5. bekk sem fór með sigur af hólmi en hann spilaði á selló. Í 2. sæti urðu þær Jóna Birna og Sonja Li í 4. bekk en þær voru með dansatriði, og í 3. sæti voru Kolbrún Líf, Þórný Sara og Tinna Malín í 4. bekk en þær sungu og spiluðu á fiðlu. Aukaverðlaun hlaut svo Amanda Eir í 4. bekk fyrir einsöng. Á meðfylgjandi mynd má sjá sigurvegara keppninnar í ár..
Lesa meira
20.02.2016
Nemendur á unglingastigi fengu að spreyta sig á að rannsaka valin líffæri úr svínum, en það er alltaf mjög áhugaverð vinna.
Lesa meira
12.02.2016
Barnabókasetur stendur fyrir myndbandasamkeppni fyrir nemendur í 5.-10. bekk grunnskóla. Keppt er í tveimur flokkum, 5.-7. bekk og 8.-10. bekk.
Markmiðið er að hvetja börn og unglinga til að lesa og tjá sig um bækurnar sem þau lesa. Með því að gera lestur barna og unglinga sýnilegri og virkja hina ungu lesendur til jafningjafræðslu getum við fjölgað lestrarhestunum - fengið fleiri til að brokka af stað - og gert lestur að spennandi tómstundaiðju. Ekki veitir af!
Nemendur geta unnið einir eða í hópi. Fjalla skal um eina barna- eða unglingabók að eigin vali í hverju myndbandi. Bókin þarf að hafa komið út á íslensku á árunum 2014-2015.
Myndböndin skulu vera 2-3 mínútur að lengd. Vista skal myndböndin á netinu (til dæmis youtube.com) og senda slóðina og upplýsingar um höfunda til barnabokasetur@unak.is Skilafrestur rennur út 20. mars. Sjá nánar á barnabokasetur.is
Öll myndböndin verður því hægt að sjá á netinu. Valin myndbönd verða jafnframt tengd við einn fjölsóttasta vef landsins, gegnir.is þar sem þau munu koma að góðum notum þegar börn og unglingar leita sér að lesefni.
Verðlaun:
Fyrstu verðlaun: 25 þúsund krónur.
Önnur verðlaun: 15.000 krónur.
Þriðju verðlaun: 10.000 krónur.
Auk þess fær skólasafnið í skóla sigurvegarans 100 þúsund króna bókaúttekt frá Félagi íslenskra bókaútgefenda.
Lesa meira
08.02.2016
Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur, að fenginni tillögu frá Menntamálastofnun, ákveðið að breyta fyrirkomulagi lögbundinna samræmdra könnunarprófa í grunnskólum. Breytingin er tvenns konar.
Í fyrsta lagi hefur verið ákveðið að öll samræmd könnunarpróf verði lögð fyrir með rafrænum hætti frá og með haustinu 2016.
Í öðru lagi hefur verið ákveðið að samræmd könnunarpróf sem undanfarin ár hafa verið haldin að hausti í 10. bekk færist til vors í 9. bekk. Því verður ekkert próf haldið í 10. bekk haustið 2016 en þeir sem verða í 10. bekk á næsta skólaári munu þreyta próf vorið 2017 á sama tíma 9. bekkingar.
Með því að gera prófin rafræn gefst kostur á fjölbreyttari leiðum við að prófa markmið skólastarfs, stytta vinnslutíma miðlægra prófa, bjóða upp á sveigjanleika í fyrirlögn, auðvelda stuðningsúrræði fyrir nemendur með sérþarfir og gefa kost á að laga próffyrirlögn að hæfni nemenda.
Með því að færa 10. bekkjar könnunarprófið í 9. bekk gefst nemendum, forráðamönnum þeirra og kennurum meira svigrúm til þess að nýta sér niðurstöðurnar til að bregðast við og móta áherslur í námi í 10. bekk.
Jafnframt þessum breytingum gerir Menntamálastofnun könnunarprófin hæfnimiðaðri í takt við áherslur í aðalnámskrá grunnskóla frá 2013. Miðað er við að áfram verði tvö könnunarpróf í 4. og 7. bekk, þ.e. í íslensku og stærðfræði. Í 10. bekk verður metin hæfni í íslensku, stærðfræði og ensku.
Menntamálastofnun mun á næstunni kynna betur breytt fyrirkomulag lögbundinna samræmdra könnunarprófa og gefa út dagsetningar á fyrirlögn þeirra á næsta skólaári.
Samkvæmt ákvæðum í almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla er foreldrum heimilt að óska eftir því að barn þeirra sé útskrifað úr grunnskóla áður en 10 ára skyldunámi er lokið. Í aðalnámskránni eru sett viðmið um verklag og forsendur við mat á slíkum óskum. Með því að færa samræmt könnunarpróf til vorannar í 9. bekk fá foreldrar, nemendur og skólar viðbótarupplýsingar til að meta hvort viðkomandi nemandi búi yfir nægilegri hæfni og geti því innritast í framhaldsskóla.
Lesa meira
07.02.2016
Mánudaginn 8. febrúar mun 7. bekkur standa fyrir búningaballi fyrir 1. - 3. og 4. - 6. bekk í Naustaskóla. Þetta er liður í fjáröflun 7. bekkjar fyrir ferð á Reyki síðar í mánuðinum.
Ballið fyrir 1. - 3. bekk er kl. 16:00 - 17:30. og 4. - 6. bekk er kl. 18:00 - 19:30
Það kostar 500 kr á ballið og innifalið í verðinu er drykkur og góðgæti.
Börnin eru hvött til að mæta í búningum á ballið, þetta verður fjör!
Lesa meira
01.02.2016
Skv. upplýsingum úr fjallinu er bærilegt útlit fyrir morgundaginn og það stefnir því allt í útivistardag á morgun..!!
Lesa meira
31.01.2016
Fréttabréf febrúarmánaðar er komið út en þar er m.a. fjallað um starfið á unglingastigi skólans, nýr ritari kynntur til sögunnar, sagt frá skólavali 2016 o.fl.
Lesa meira
31.01.2016
Fimmtudaginn 28. janúar kynntu nemendur á unglingastigi nýsköpunarverkefni sín sem þeir höfðu unnið í áhugasviðstímum. Þarna gat að líta margar hugmyndir að nýstárlegum uppfinningum ásamt lýsingum og módelum af viðkomandi hlutum. Það er líklega aldrei að vita nema að einhverjar þeirra muni raunverulega líta dagsins ljós á næstu árum.. Smellið hér til að sjá myndir frá kynningunum og úr náttúrufræðitíma á unglingastiginu..
Lesa meira
28.01.2016
Þrjá undanfarna miðvikudaga höfum við fengið "opinberar heimsóknir" í Naustaskóla. Þar er um að ræða elstu nemendur Naustatjarnar sem eru að kynna sér grunnskólann, enda styttist í að grunnskólagangan hefjist hjá þeim, og flest koma þau þá í Naustaskóla. Í opinberum heimsóknum skoða þau skólann í fylgd skólastjóra og staldra við ýmislegt sem vekur athygli. Hér má sjá nokkrar myndir frá heimsókn síðasta hópsins sem kom til okkar miðvikudaginn 27. janúar.
Lesa meira